föstudagur, október 31, 2008

Hádegisæfing - 31. október

Mæting : Kalli, Bryndís, Sveinbjörn, Huld og undirritaður

Vegna hálku var ákveðið að fresta 'Hills of Horror' þar til á mánudaginn. Þess í stað var farið inní kirkjugarð og teknir fjórir brekkuhringir í beit. Rólegur og þægilegur föstudagur, létt yfir hópnum. 6,3km.

Í kirkjugarðinum vitjuðum við leiðis foreldra Sveinbjörns en móðir hans hefði orðið 99 ára í dag.

Kveðja,
Dagur

Árshátíð FI-SKOKK 15. nóvember

Ágætu skokkklúbbsmeðlimir.

Okkar árlega uppskeruhátíð, sem jafnframt er aðalfundur, verður haldin laugardaginn 15. nóvember 2008.

Dagskrá er eftirfarandi:

- Mæting á Vínbarnum Kirkjutorgi 4, 101 Rvk. (andspænis Dómkirkjunni) kl. 17.00, en þar býður FI-SKOKK drykk af bar.
- Frá Vínbar verður gengið um næsta nágrenni í fylgd leiðsögumanns og styttur skoðaðar. Gangan tekur rúma klukkustund og því er nauðsynlegt að klæðast eftir veðri.
- Sá eða sú sem nær á áhrifamestan máta að líkja eftir styttu hlýtur verðlaun. Einungis ein verðlaun eru í boði.
- Gengið til óðalsseturs Ólafs Briem og Sigrúnar, Laufásvegi 75, þar sem okkar bíða veitingar í formi matar og drykkjar.

Áhugasamir vinsamlega skráið ykkur á bloggsíðu Skokkklúbbsins (í comments) eða sendið póst á mailto:anna.dis@simnet.iseða mailto:oli@icelandair.is.
Þeir sem ekki eiga þess kost að fara í göngu en sjá sér fært að mæta í veisluna hjá Óla og Sigrúnu vinsamlega takið það fram.

Vonumst til að sjá sem flesta!

Stjórn FI-SKOKK

fimmtudagur, október 30, 2008

Hádegisæfing - 30. október

Það var glaðlegur og einbeittur hópur sem lagði af stað frá Hótel Loftleiðum klukkan 12:08. Þar voru mættar hótel systurnar Sigurborg, Ágústa og Baldur, Guðni og Huld ásamt undirrituðum. Einnig sást til Reynis Péturs (Jóa) á hraðgöngu.

Hótelsystur skunduðu í brekkuæfingar í Öskjuhlíðina með hörku endasprett að sögn Baldurs. Restin fór sýningarhring í bæinn að venju á góðvirðisdögum, sögur og gátur sagðar, helgið og gantast. Fitubollukeppnin leiddi í ljós að þjálfarinn hafði bætt á sig 1,5kg síðan á þriðjudag. Með þessu framhaldi verður hann orðinn þyngri en Bjútíið fyrir árshátíð.

Gátan : Í landinu einu fara fram kosningar milli tveggja frambjóðenda. Í landinu eru 11 fylki með hvern sinn kjörmann og í hverju fylki eru 11 kjósendur. Meirihlutakosning í hverju fylki ræður kjöri kjörmanns og meirihluti kjörmanna ræður kjöri forseta.
Hvað getur sá sem tapar kosningunum að hámarki fengið mörg atkvæði kjósenda?

Aukasprettir á morgun í Öskjuhlíðar terrornum í boði fyrir rétt svar.

Kveðja,
Dagur

miðvikudagur, október 29, 2008

No Whining Wednesday 29.október

Undurfagurt veður í dag og gott til æfinga. Stórgóð mæting var á hina klassísku tempóæfingu án væls. Nú er ekki bara bannað að gefa frá sér hljóð, það er einnig bannað að hugsa neikvætt og verða þeir sem láta sér svo mikið sem detta í hug eitthvað annað en"ég er frábær, ég er best/ur", eða "vindurinn er vinur minn" teknir fyrir sérstaklega og sendir í ítarlegt viðtal og skoðun hjá sálgæsluréttarlækni FI samsteypunnar. Tíminn þar kostar ekki nema 7000 krónur (er reyndar bara 1/2 tími) en anyways... Þeir sem þetta þola mættu í dag og voru: Bjöggi the bjútífúl one, Kalli the Svale, Sigurgeir the younger sister, Dagur the speedmaster, Oddgeir the soon to be 2nd best, Bryndís the lady, John Gnarr the Hnakk, Huld the reigning queen, Sigrún the notorious blogger and Sveinbjorn the duckwatcher ( innskot höf. endursk.) og Anna Dís the GPS wrecker sem fóru saman. Í boði voru Suður, Hofs og Kapla Short/Long. Að ná eða að vera ekki náður eru einkunnarorð þessara æfinga og gekk þetta í flestum tilfellum vel. Hjá kafara safnast hópurinn saman og er samferða heim á hótel. Vissrar tilhlökkunar er farið að gæta hjá hópnum varðandi fyrirhugaða árshátíð sem vonandi allir gefa sér tíma til að mæta á en hún er sem kunnugt er þann 15. nóvember og verður greint frá því nánar síðar.

Í tilefni fallegs dags í dag
Kveðja,
Sigrún

þriðjudagur, október 28, 2008

Hádegisæfing 28. október

Það er vægt til orða tekið að kalt var í veðri á æfingu dagsins en samt mættu vaskir félagar til æfinga, allavega þeir sem eiga vetrarföt. Þeir sem mættu voru: Cargo-systur þær Fjölnir(a) og Sigurgeir(a), Sigrún Erlends (alias nafna) og gestahlaupari, Björg Stefanía og Hekla úr flugdeild, Guðni, Dagur, Oddgeir, Huld, Anna Dís (í endurkomu vonandi) og Sigrún. Farið var greitt af stað og augljóst að þjálfarinn hefur verið í svelti, allavega á einhverju sviði. Cargo -systur, Guðni og Huld ásamt The Sigrún's fóru auma Suðurgötu en "hardcorið" (Oddgeir og Dagur) fór Hofsvallagötu á undir 40 mínútum, sem er harla ásættanlegt. Núna telst hreyfing til auðæva og því má ekki glata henni fyrir nokkurn mun. Þá værum við fyrst farin að tala um skert lífsgæði.
Kveðja,
Sigrún

mánudagur, október 27, 2008

Dagslausi dagurinn 27. október

Hvernig er hægt að sleppa einum degi? Það er ekki hægt, hann er alls staðar. Mánudagur, þriðjudagur... hvergi verður þverfótað fyrir degi, það er margreynt. Samt tókst okkur smælingjum FI samsteypunnar að stauta okkur framúr nokkuð góðri æfingu í dag, á Dagslausa deginum. Mættum við glaðbeitt og full tilhlökkunar og vissu um að nú yrði æfingin róleg og góð. Eftir skamma upphitun með fegurðarmógúlinn í forsvari héldum við: Hössi, Bjútí, Óli black-belt, Kalli Svalaferna og Sigrún niður á Miklatún í góðri trú. Þar vildi Hössi (sem sannarlega er úlfur í sauðargæru) fara í spretti. Skipti þá engum togum að við skelltum okkur í "horn í horn" á túninu og fórum 4 svoleiðis (vegna fjölda áskorana) (um 650m) með 4 *500m skokki á milli. Skokkuðum svo heim eftir þetta og vorum virkilega stolt yfir því hvað dagurinn var góður. Kalt var í veðri en sól og stórfínn félagsskapur. Einnig voru Sveinbjörn og Jói á eigin æfingum.

Alls 7,4-K
Kveðja góð,
Sigrún

A tribute to the trainer

föstudagur, október 24, 2008

Freaky Friday 24. október

Mættur fríður flokkur í dag þrátt fyrir kalsa og slyddu: Dagur, Bjútí (í markmannshönskunum og seglinu), Oddgeir, Hössi, Huld, Kalli svali, Sigrún og þrjár tindilfættar af hótelum, þær Sigurborg, Rúna Rut og ein í viðbót (náði ekki nafninu). Þær tindilfættu fóru tjarnarrúnt en hinir fóru miðbæjarrúnt þar sem straujað var inn í Ráðhús og tekinn hringurinn um landið. Komumst óáreitt frá því verkefni (greinilega ekkert að gerast þarna inni) og héldum heim með vindinn í bakið. Hjá Valsheimili var aðeins lengt í og Öskjuhlíð tekin í nefið. Við stelpurnar og Svalinn týndumst reyndar og misstum þ.a.l. af strákunum, enda rötum við ekki skóginn í hvítu, bara í brúnu. Það vekur enn athygli félagsmanna, ekki einungis aðalritara, að Kalli skuli klæðast jafn sumarlegum og skjóllitlum fatnaði og raun ber vitni við þolæfingar svo jaðrar við guðlast. Að því tilefni hef ég ákveðið að taka "æðruleysisbænina" á þetta og sætta mig við það sem ég get ekki breytt. Ég er m.ö.o búin að reyna að fá drenginn í síðbuxur og stakk en get engu breytt um það svo ég verð að "hvíla mína tösku" en held áfram að herja á Bjútíið með að droppa markmannshönskunum, hið minnsta. Síðan eru örugglega einhverjir útigangsmenn sem geta sofið í tjaldinu hans, það er þriggja manna.

Alls milli 8-9K
Kveðja,
Sigrún

fimmtudagur, október 23, 2008

Þú getur bjargað mannslífum!

Þú getur bjargað mannslífum!

Mánudaginn 27. október verður Malaríuhlaup JCI haldið til styrktar verkefninu Nothing But Nets.
Á 30 sekúndna fresti deyr barn í Afríku af völdum malaríu. Með því að safna fé til kaupa á malaríunetum og senda til Afríku er hægt að bjarga börnum og fjölskyldum þeirra frá vísum dauða.
Hvert net kostar aðeins um 1.000 kr. og dugar fyrir heila fjölskyldu í fjögur ár.

Við hvetjum þig til að mæta hvort heldur er til að ganga, skokka eða hlaupa.
Þátttaka og stuðningur er aðalmálið, með þinni þátttöku getur þú bjargað heilli fjölskyldu!

Boðið er upp á 3 km skemmtiskokk án tímatöku og 5 km hlaup með tímatöku.
Rásmark er við Skautahöllina í Laugardal og verður hlaupið á stígum í Laugardal.

Þátttökugjald er 1.000 kr. fyrir 3 km skemmtiskokk og 1.500 kr. fyrir 5 km hlaup.

Skráning fer fram á www.hlaup.is til kl. 21:00 sunnudaginn 26. október.
Á hlaupadegi verður hægt að skrá sig á staðnum í anddyri Skautahallarinnar í Laugardal þar til 10 mínútum fyrir hlaup.
Athugið að ekki er hægt að greiða með greiðslukorti á staðnum en hægt er að nota greiðslukort í forskráningu á hlaup.is.

Nánari upplýsingar um hlaupið er að finna á www.jciesja.org/nothingbutnets
Nánari upplýsingar um verkefnið Nothing But Nets er að finna á www.nothingbutnets.net og www.jci.cc/nothingbutnets

Við hvetjum þig til að senda póstinn áfram til allra sem þú þekkir – því fleiri sem mæta því fleiri lífum verður bjargað.

þriðjudagur, október 21, 2008

Hádegisæfing - 21. október

Mæting : Kalli (stuttbuxum), Guðni, Bryndís, Björgvin, Sveinbjörn, Dagur

Blíðskaparveður, nánast logn, heiðskír himinn, en nokkuð kalt.

Farið var vestur í bæ, Suðurgata, osfrv. Hefðbundið og enginn asi á mönnum, farið var mislangt eftir skapi hvers og eins.

Kveðja,
Dagur

mánudagur, október 20, 2008

Hádegisæfing - 20. október

Mætting : Óli, Kalli, Dagur og Jói (á eigin vegum í hlíðinni)

Fengum inni í lauginni að velviljan mótttökunnar þrátt fyrir auglýsta lokun. Fórum 6x bláa hringinn í Öskjuhlíðinni + stór aukahringur kringum Perluna samtals rúmlega 8k.

Kalt var í veðri og snjómugga. Það kom samt ekki í veg fyrir að Kalli mætti í stuttbuxum enda veit hann ekkert betra en að láta norðangarrann leika um vel vaxaða leggina á degi sem þessum. Á meðan voru aðrir komnir í vetrarbúning með húfu og vettlinga. Svalur piltur hann Kalli kaldi.

Kveðja,
Dagur

föstudagur, október 17, 2008

Freaky Friday - around the world two times

Mættir í dag á æfingu voru: Sigurgeir (fór sér, ekki hjá sér), Höskuldur daydreamer, Dagur the restless, Guðni Phileas Fogg, Sigrún Erlends, -nafna og brekkubani og Sigrún Aðal. Þetta var meðvirkt samfélagshlaup sem saklausir hjástandendur (innocent bystanders) lentu í, fyrir einskæra tilviljun. Um var að ræða 9 Km hlaup til að Guðni næði hlaupamælingunni 20.000 Km (frá upphafi mælinga) og farið var nokkuð greiðlega. Hlupum vestur í bæ, Kaplaskjól, framhjá randafluguvöllum (KR), Grandaveg, JL hús niður í miðbæ og upp Skólavörðustíg (að beiðni) og upp að Leifi heppna og hoppuðum þar eins og fávitar (eitthvað Laugaskokks dæmi), áfram Barónsstíg og upp á Miklubraut þar sem um 1 Km var eftir að hóteli. Þá var gefið aðeins í eftir megni og tekið tempó heim að hóteli. Leiðin reyndist um 9,2 Km og var farin á rúmum 45 mínútum. Þar með fór síðasta von vikunnar um rólega félagsæfingu, enda ekki ástæða til afslöppunar á þessum viðsjárverðu tímum. Þá má hinsvegar telja Guðna til hróss að með þessu hlaupi hefur hann hlaupið tvisvar kringum hnöttinn og þá eru ótalin öll þau skipti þar sem hann hefur hlaupið á sig eða undan sér. Hann var þó reyndar aðeins meira en 80 daga að klára vegalengdina.

Kveðja,
Sigrún

Lokun sundlaugar Hótels Loftleiða í næstu viku

Sundlaugin á Hótel Loftleiðum verður lokuð frá mánudeginum 20. okt.-fimmtudagsins 23. okt. að báðum dögum meðtöldum. Hlauparar hafa ákveðið að efna til hópferða frá aðalinngangi, þ.e. sameinast í bíl/a og fara í Vesturbæjarlaug, annaðhvort í sund eða hlaup. Farið verður af stað kl. 12.00 og eru allir velkomnir, sérstaklega þeir sem eru aflögufærir með bíla.
Kveðja,
Stjórn IAC

fimmtudagur, október 16, 2008

No Torture Thursday

Mætt í dag í súld en fínu hlaupaveðri: Joe Boxer, speedwalking og Sveinbjörn kenndur við innri endurskoðun, sem fór út á dælustöð og til baka, og Guðni, Dagur, Hössi, Huld og Sigrún. Ótti félagsmanna um erfiða æfingu reyndist ástæðulaus að þessu sinni því blíðlega var tekið á meistaraflokknum að þessu sinni. Farin var leið um Hlíðar, Holt og Öskjuhlíð, en aðalritari treystir sér ekki til að skilgreina götuheiti því einn samferðamanna hennar talaði látlaust um uppröðunarsýki sína og hvernig hann notaði Dewey's flokkunarkerfið heima, við flokkun matvæla. Einnig var rætt um innri djöfla (inner demons) og hvernig þeir vondu, sem eru alltaf til staðar, virðast ná að murka andann úr annars alheilbrigðu fólki. Þá er mikilvægt að finna góða djöfulinn sinn (hjá sumum er þetta engill, ekki öllum) og fá hann til samstarfs og hvatningar. Aðal galdurinn er að virkja hann (sbr. grein um self talk) og fá hann til að taka yfir hugsanaferlið með einfaldri möntru sem virkar fyrir hvern og einn. Ef félagsmenn luma á góðum ráðum um möntrur, s.s. "vindurinn er vinur minn", eru þær ábendingar þegnar hér að neðan í comments.

Alls 8K á um 42:40 mín.
Kveðja,
Sigrún

Choice Words

Kannski vilja fleiri nýta sér þetta.

Self talk

Kveðja úr herbúðum aðalritara.

miðvikudagur, október 15, 2008

No Whining Wednesday 15. október

Í góða veðrinu í dag mættu: Björg Stefanía, Hekla Aðalsteinsdóttir, Sigríður Björnsdóttir (stórglæsilegir nýliðar í hátískufatnaði), Jói á hraðgöngu og Ingunn skógardís, Guðni strigakjaftur, Dagur, Óli, Oddgeir, J.Gnarr, Huld, B.Bjútí, Kalli og Sigrún. Nýliðarnir með Sigríði Björnsdóttur í forsvari fóru heim að dælustöð og tilbaka, u.þ.b. 5 kílómetra en restin fór í hið týpíska tempóhlaup, með 2 vegalengdir í boði; Kaplaskjól og Hofsvallagötu að kafara (enginn fór Suðurgötuna). Fljótlega pöruðu menn sig saman; Gnarr og Huld, Bjútí og Sigrún, Kalli, (Hofs) en hinir (Kapla) voru eflaust saman fyrst en síðan dreifðir, sá það náttúrulega ekki, ekki fyrr en Doris Day & Night (í matching dressum eins og hjón) komu á hrokafullri hraðsiglingu síðustu 100m tempósins. Ekki bar á öðru en að viðstaddir hefðu tekið vel á því en hvorki heyrðist hósti né stuna alla leiðina, enda búið að þvertaka fyrir allt slíkt. Háar fjársektir verða innheimtar ef menn svo mikið sem "æja" einu sinni. Fatamál nokkurra félagsmanna eru enn í ólestri og verður harðar tekið á því þegar á líður vetur en ekki er hægt að bera fyrir sig vöruskorti í þjóðfélaginu eða neinu þ.h. Menn geta bara drullast til útlanda að kaupa þetta. Lágmarksbúnaður er: niðurmjóar hommabuxur, vindstakkur í stíl (ekki frá Seglagerðinni), vettlingar (ekki gamlir markmannshanskar), smart húfa úr lycra og nýjustu ASICS hlaupaskórnir hverju sinni. Geta þátttakendur átt von á því að verða fyrirvaralaust kallaðir fyrir tískunefnd og reknir heim ef þeir uppfylla ekki útlitsskilyrðin.

Kapla 9,1
Hofs 8,6
Dæla/ return 5 (allar einingar í km)

Ath. ef einhver hefur séð keppnisskapið mitt á flækingi eða hefur tekið það ófrjálsri hendi er sá hinn sami beðinn að hafa samband við vallarvörð.

Bestu kveðjur,
Sigrún

þriðjudagur, október 14, 2008

Tired Tuesday 14. october

Góð mæting í dag: Dagur, Hössi, Guðni, Fjölnir, Sigrún (nafna), Oddgeir, Sigrún, Sveinbjörn og Laufey sem voru tvö á eigin skógarflippi. Farið var frá hóteli í gegnum skóg og upp í Kópavog (Kársnesmegin) og farið út 4K og þá snúið við. Lengi var von til að æfingin yrði róleg en allt kom fyrir ekki, einn félagsmanna heimtaði að tekinn yrði lengsti armur kolkrabbans (um 1200m) í restina með rólegu skokki eftir það. Skipti þá engum togum að maður þurfti að druslast upp að Perlu frá kirkjugarði í smá hraðaaukningu. Fyrir brekkuna löngu var rætt um afrek félagsmanna í t.d. Powerade og Geðveika hlaupinu, en þar var vaskleg framganga félaganna til fyrirmyndar. Menn nota orðið ýmsa tækni við hlaupin, t.d. "virtual partners" sem toga menn áfram. Einn félagsmanna náði þó það góðum árangri í hlaupi á laugardag, þótt hann sé ekki geðveikur, að aðalritari freistast til að halda að um hafi verið að ræða "virtual reality".

Alls 8,6K með 1200m kafla upp brekku á hraða

P.S. Takk Hössi fyrir að huga að smælingjum í brekkunni!
Kv. Sigrún

mánudagur, október 13, 2008

Mountain Monday - 13. október

Góð mæting : Guðni, Kalli, Björgvin, Óli, Huld, Hössi, Oddgeir, Dagur, Ágúst og Sigurborg

Að ósk Guðna var blásið til brekkuæfingar. Farin var sami túr og farin var þann 30. sept. Stóðust allir þrautina þó erfið væri. Sérstaklega ber að nefna þá Oddgeir og Hössa sem sýndu ótrúlega takta og snýttu þjálfaranum á tveimur seinni sprettunum. Vonandi verða einhverjir með strengi á morgun.

Guðni óskaði eftir því að mánudagar yrðu gerðir að 'Mountain Mondays' þó ekki væri nema til að létta spennuna fyrir æfingar þannig að allir vissu hvað þeir ættu von. '...annars er maður með kvíðasting allan morguninn...'

Óli var seinn út en náði hópnum á þriðja sprett. Á leiðinni fældi hann hindurnar tindilfættu (Ágústu og Sigurborgu) sem skokkuðu léttfættar á eigin vegum.

Kveðja,
Dagur

föstudagur, október 10, 2008

Featherd-freaky friday - Hofsvallagatan "with a twist".

Sæl veriði öll til sjávar og sveita.
Í dag óskaði Guðni-"Gnarr"-bani eftir því að leiða freak-hlaup dagsins.
Mættir voru (hel-cuttaðir og tanaðir í drasl), Bjútíið, Gnarr-baninn, Dagur og Oddgeir.
Einnig var Sveinbjörn "á eiginvegum", og Fjölnir Cargó, og Óli Briem kom seint, en hafði þá orð Bjútísins að leiðarljósi "Það er ekki nóg að hlaupa langt - það þarf lika að hlaupa hratt". Enda tók hann bara 30 mínútna sprett upp og niður öskjuhlíðina, einskonar "two armed octopussy".
Hinir 4 fræknu lögðu af stað í átt að Valsheimilinu þegar Gnarr-bananum varð á orði, "það er bara eingin kvennmaður í dag...... ekki einu sinni Sigurgeir".
"Featherd-twist-ið" í dag var að hlaupa Ægissíðuna vitlausumegin, þ.e. á gangstéttinni, og beigja svo inn í einhverjar minnstu og þrengstu götur sem til eru í Reykjavík. Þeir heita allar eitthvað ránfugla-tengt, eins og Arnar-stræti og Smyrilstígur og svo að sjálfsögðu Fálkagata. Reyndar náði Steypireyðurinn ekki að leggja réttu götunöfnin á minnið vegna súrefnisskorts í heila, en þetta var allavega eitthvað svona fiðrað með beittan gogg.
Þessi hringur reyndist vera 9,2 Km og er ekkert gengisfall á því.
Gríðarskemmtileg föstudagsæfing um "óbyggðir" vesturbæjarins.
Bjútíið.

49. vetrarraðhlaupið

Í gær fór fram 49. vetrarraðhlaupið. Fljótt á litið er þetta 32. raðhlaupið sem ég hleyp. Þarna hitti ég Huld og svo 3 viðhengi klúbbsins, Hössa, Jón Gnarr og Sigrúnu (nafna/frænka). Hugmyndin hafði verið að hlaupa með afmælisbarninu (þó ekki Lennon) en sá lét ekki sjá sig.

Við Hössi stilltum okkur upp á start línunni. Hössi hvarf mér en ég fann mér aðra til að elta. Færi var gott en austan rok. Bitnaði helst á undirrituðum í rafstöðvabrekkunni, en hún var erfiðari en nokkru sinni. Við Gnarrinn vorum í einhverri keppni um tíma, ég leyfði honum að halda að hann myndi hafa mig en ég átti smá endasprett þannig að ég hafði hann á sjónarmun á ca. 43:40, ca. 100 sek á eftir Hössanum. Huld kom svo stuttu síðar og svo Sigrún.

Lærdómur dagsins: 1) Æfa brekkur 2) æfa meira 3) æfa lengra.

GI

miðvikudagur, október 08, 2008

Whimpy Wednesday - 8. október

Vegna keppnishlaups á morgun var tekin róleg æfing. Snorrabraut, miðbær, Austurvöllur (þar sem við tókum þátt í mótmælum gegn krónunni kæru), Tjörnin og heim á hótel, 6,8k.

Mæting : Sveinbjörn, Huld, Guðni, Kalli, Dagur

Sjáumust á morgun í Powerade Vetrarhlaupinu.
Fyrir þá sem ekki hlaupa annað kvöld þá verð ég með 10k tímatöku í hádeginu á morgun.

Kveðja,
Dagur

þriðjudagur, október 07, 2008

Tempo Tuesday 7. okt.

Ekkert lát er á þrengingum í samfélaginu en þeirra gætir að sjálfsögðu ekki á æfingum FI SKOKKs. Þar mættu galvösk: Höskuldur Ljósvetningagoði, Dagur hinn miskunnarlausi Samverji, Oddgeir Endorfíni, Guðni ryðkláfur og Sigrún, sem vegna fjölda áskorana hljóp bæði of langt og of hratt í dag. Einnig voru Anna Dís og Ágústa með vinkonu sinni mættar og fóru í skógarhlaup. Ingunnar varð einnig vart og Jóa, en þau voru á eigin vegum. Boðið var upp á 2 leiðir tempóhlaups; Kaplaskjól eða Granaskjól að kafara. Fór þó svo að hjónin fóru Kapla en bensínspekúlantarnir 3 fóru Grana-long. Veður var ágætt á útleið en á lengsta kafla tempós gætti mikilla sviptivinda og engin leið var að tjóðra sig við brautina, enda margir þátttakenda í fluguvigt. (not) Dugði þá skammt hið fornkveðna"vindurinn er vinur minn", sem reynt hefur verið að þröngva inn í haus félagsmanna síðustu vikurnar. Ekki tókst samt þríeykinu að ná Kaplaskjólinu áður en kafara var náð. Heldur var farið að þykkna í aðalritara þegar þangað kom og ákvað hún að staldra ekki við, heldur halda heim á hótel, einsömul. Er nær dró hótelinu álpaðist aðalritari til að horfa reið um öxl og sér hún þá hvar morðóðu hundarnir eru komnir á þeysisprett á eftir henni. Ekki hugnaðist henni þessi sjónmengun og reyndi eftir megni að bæta í, þrátt fyrir andlegt gjaldþrot og harðsperrur. Hófst því við lok ASCA-brekkunnar hinn æðisgengnasti lokasprettur þar sem óþarfi er að nefna, hver hratt og örugglega, kom geltandi upp að viljalausu verkfærinu sem háði sinn lífróður heim að póstkassa. Mátti í engu muna hvort kom að kassanum fyrst og verða fjöldamörg vitni að dæma þar um.
Grani 10,1K
Kapla 9,3K
Kveðja,
Sigrún (eða allavega restin af henni)

mánudagur, október 06, 2008

Manic Monday 6. október

"Það sést hverjir drekka Egils Kristal" enda mættu bara Jói (hraðganga), Dagur, Oddgeir og Sigrún í hundaveðri dagsins. Hrakspár og hrun fá engu breytt um einbeitingu þessa hlaupahóps sem ótrauður stefnir að sínu marki. Fórum í skógarhlaup til að verjast ágangi fjölmiðla (ekki út af veðri) og hlupum bláa stíg 6*, með leiðsögn til skiptis, nánast í beit. Félagsmenn eru að bæta á sig vetrarflíkunum og þeir alhörðustu komnir með húfu og vettlinga, eins og skólastrákum sæmir.
Fín æfing og smá magi á eftir.
Kveðja,
Sigrún
N.B. hver hringur er um 876m

laugardagur, október 04, 2008

Esjan 4.október



Héldum af stað í rútu frá HL með viðkomu á bensínstöð, til að sækja þrjá. Nokkrir komu síðan á eigin vegum. Veður var ægifagurt, sól og logn og hiti mjög þægilegur til útiveru. Þeir sem lögðu af stað frá Esjurótum voru: Sigrún, Sveinbjörn, Jói Úlfars, Jens Bjarna, Kalli, Kristinn Hjörtur, Sissa og Jónas (eiginm.), Oddný, Dagur, Svana, Hilmar og Inga Lára. Uppi rákumst við svo á Ágústu með tvær stelpur með sér.
Leiðin upp var frekar greið, snjór á köflum en oftast fínt færi. Nokkrir voru með göngustafi og flestir í gönguskóm, sumir í hlaupaskóm, sem dugðu alveg. Fórum upp að Steini, mishratt og söfnuðumst þar saman. Nokkrir vildu þá fara alla leið og gerðu það en aðrir ýmist biðu eða héldu niður. Tveir hlupu niður, aðrir gengu.
Sjaldan hefur veður verið eins fagurt og stillt og vel til Esjugöngu fallið og í dag og næsta víst að þessi ferð þolir alveg endurtekningu í náinni framtíð. Um 3,3 kílómetrar eru upp að Steini og tæplega 600m hækkun en um 190m bætast við alveg upp á topp.
Bestu kveðjur,
Sigrún

föstudagur, október 03, 2008

Hádegisæfing - 3. október

Mæting : Sigurgeir, Kalli, Óli, Dagur og einnig sást til Ingunnar á eigin vegum

Allir sem hlupu í dag eru viðskiptafræðingar og þótti því við hæfi að fara í pílagrímsferð milli mustera miðborgarinnar (Seðlabanka, Stjórnarráð, Alþingi, Ráðhús). Færðar voru fórnir til að friða guði efnahagsreglar óreiðu og biðja fyrir því að ráðamenn þjóðarinnar hafi visku til að leiða þjóðina gegnum þessar þrengingar sem hún stendur frammi fyrir. Amen.

Annars, flott veður, fínt færi, góður félagsskapur og síðast en ekki síst Kalli sem fær stóra stjörnu í kladdann fyrir að mæta í stuttbuxum.

Kveðja,
Dagur

fimmtudagur, október 02, 2008

Hádegisæfing 2. október


Í dag í tilefni sláturtíðar, var tekin æfing til heiðurs hjartanu að beiðni Huldar. Um var að ræða 6x400m spretti. Hlaupnir voru ca. 2/3 úr "Jónasarhring" og svo mjög rólega 1/3 úr hringnum þar til sprett var úr spori á nýjann leik. Þar sem klúbbmeðlimir hafa látið í ljósi gríðarlega hæfileika í rími, innrími og stuðlun fékk æfing dagsins nafn. Öll þekkjum við frasa eins og "No Whining Wednesday", "Freaky Friday", "Manic Monday" og svo nýlega bættis við tilvísun í dýraríkið - "The Four Arm Octopussy". Haldið var áfram með dýraþemað að þessu sinni og var æfing dagsins kölluð "The Horrible House-fly". Af hverju? Jú húsflugur (reyndar eins og flestar aðrar flugur) eru með 6 lappir en ekkert svo langar. Snilld!
Undirritaður leggur samt hér með til eftir æfingu dagsins, að við förum að keppa í "hjartasprettum". En þeir fara þannig fram að mældur er hjartsláttur keppenda strax eftir svona spretti, og sá vinnur sem er með flest slög á mínútu. Undirritaður telur sigurmöguleika sína allnokkra og þónokkuð mikið betri heldur en í þessum hefðbundnu hlaupum klúbbsins. Annars, snilldar æfing í góðu veðri.
Mættir voru, Hössi Heljarmenni, Dagur Drullufljóti, Óli Ofurmenni, Huld Hjartgóða (ath. snilldina hér, tvöföld merking :-), Sveinbjörn Sjúkraliði, Sjávarútvegsfræðingurinn Sí-þreytti, og síðast en ekki síst, formaður vor Hafdís......ég meina Anna Dís, það er svo langt síðan síðast.... :-)
Ég biðst innilega sáð... ég meina forláts á undirskriftarleysinu og kvitta hér með fyrir.
"Bjútíð"

miðvikudagur, október 01, 2008

No Whining Wednesday 1.október

Mættir á vælulausa daginn: Kalli, Bjöggi, Oddgeir, Dagur, Huld og Sigrún. Einnig sást til Jóa á hraðsiglingu umhverfis flugvöllinn. Orð dagsins þurfa að koma hér fram. Spurt var: "Ertu vangefinn?". Svar:"Nei, ég elska að láta vindinn leika um loðna leggina". Þetta þarfnast ekki frekari skýringa enda búið að setja lögbann á allan fréttaflutning af æfingum.
Hituðum upp í sláandi roki og fórum svo í 2 hollum á Hofs og Grana/Kapla í tempóhlaup að kafara. Ekki heyrðist hósti né stuna á leiðinni, enda rokið slíkt að vælukjóarnir heyrðu ekki einu sinni í sjálfum sér. Allir hrákar fóru einnig beint í andlit þeirra sem hræktu. Á Ægisíðu var þó fallegt gluggaveður og nutu félagsmenn þess að feykjast í átt að kafaranum. Einn félagsmaður var þó sýnu þrekaðri þegar þangað kom en skal það ósagt hver þar á í hlut.
Það er sérstök ábending til félagsmanna að þeir reyni að verða sér út um viðeigandi klæðnað fyrir veturinn, segl og þvengbuxur eiga engan veginn við þegar um er að ræða metnaðarfullt uppbyggingarstarf keppnisíþróttamanna sem eiga að bera merki IAC á lofti í hlaupakeppnum. Hvað þá knattstuttbuxur og hálferma treyjur. Vonast er eftir breytingu til batnaðar í þessum efnum.

Kveðja,
Sigrún